Ofbeldi gegn konum, veldi Assad-feðga, gervistéttarfélög

Spegillinn - Podcast készítő RÚV

Kategóriák:

Síðustu daga og vikur hafa birst óhugnanlega fréttir um ofbeldi karla gegn konum. Kynbundið ofbeldi gegn konum er ekkert nýtt en stundum verða frásagnirnar yfirþyrmandi, eins og þessar fréttir bera vitni um. Samkvæmt embætti ríkislögreglustjóra var í fyrra óskað eftir 97 nálgunarbönnum, í langflestum tilvikum eru þetta konur að verja sig gegn körlum sem hóta þeim líkamlegu og andlegu ofbeldi. Það þarf ekki annað en að fletta upp á vef Landsréttar og slá upp orðinu nálgunarbann til að sjá hversu langt karlar eru reiðubúnir að ganga gagnvart konum, - því kynbundið ofbeldi gegn konum er jú fyrst og fremst vandamál karla, segir María Rún Bjarnadóttir, lögfræðingur hjá ríkislögreglustjóra. Freyr Gígja Gunnarsson ræðir við hana. Bashar al-Assad, sem á dögunum var hrakinn frá völdum í Sýrlandi á örfáum dögum eftir nær aldarfjórðung á forsetastóli, er kominn til Rússlands, þar sem stjórnvöld veittu honum og fjölskyldu hans hæli af mannúðarástæðum, eins og það var orðað af ónafngreindum heimildarmanni Interfax-fréttastofunnar rússnesku. Bashar al-Assad, sem er augnlæknir að mennt, tók við forsetaembættinu af föður sínum, Hafez al-Assad, sem lést árið 2000, eftir nær þrjátíu ár á valdastóli. Samtals fóru þeir feðgar því með alræðisvald í Sýrlandi – og beittu því af hörku - í hartnær 55 ár, eða frá árinu 1971, þegar Hafez tókst að hrifsa til sín öll völd eftir röð valdarána áratuginn á undan. Ævar Örn Jósepsson stiklar á stóru í valdatíð al-Assads eldri. Seint í október skrifuðu fulltrúar samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, SVEIT og Virðingar stéttarfélags undir kjarasamning sem felur í sér lakari kjör og minni rétt en samningur milli Samtaka atvinnulífsins og Eflingar/Starfsgreinasambandsins. Efling hefur reiknað út að þar muni um rúmlega fimmtíu þúsund krónum í meðalmánuði. Virðing varð til eftir að Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að Eflingarsamningurinn skyldi gilda. Finnbjörn A. Hermannsson forseti Alþýðusambands Íslands segir að Virðingu megi kalla gervistéttarfélag vegna þess hvernig sambandi atvinnurekendanna og þeirra sem gera samninginn er háttað. Anna Kristín Jónsdóttir talaði við Finnbjörn. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Mark Eldred