Kaldur blettur í hitnandi heimi, tímamótadómur yfir Google
Spegillinn - Podcast készítő RÚV
Kategóriák:
Kuldapollur, eða blár blettur, sem myndast hefur í hafinu suður af landinu er ein helsta ástæða þess að þau methlýindi sem geisað hafa á Jörðinni að undanförnu hafa að mestu sneitt hjá Íslandi í sumar. Kuldapollurinn er afleiðing óstöðugleika í svokallaðri veltihringrás hafstrauma, eða AMOC, einskonar blöndunartækjum hafsins sem blanda heitum yfirborðssjó við kaldandjúpsjó. Halldór Björnsson fagstjóri veðurs og loftslags á Veðurstofunni, segir afar ólíklegt að téður kuldapollur verði varanlegur. Það gerist aðeins ef loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á veltihringrásina fara yfir ákveðinn vendipunkt og breytingarnar verði óafturkræfar. Enn séu engin merki um að komið sé að slíkum vendipunkti og því mun líklegra breytingarnar gangi til baka, segir Halldór. Það breytir því ekki, að jafnvel í vísindatímaritum hafa birst stríðsfyrirsagnir á þá leið, að veltihringrásin geti hrunið fljótlega og það á örfáum árum. Linda Blöndal ræðir við Halldór. Bandarískur alríkisdómstóll hefur komist að þeirri niðurstöðu að tæknirisinn Google hafi náð eða í það minnsta viðhaldið yfirburðastöðu leitarvélar sinnar á markaði með ólögmætum hætti - misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Dómurinn féll eftir fjögurra ára málaferli. Þau snerust um að Google hefði greitt stórum tæknifyrirtækjum á borð við Apple og Samsung milljarða dollara fyrir að beina netleit í tölvum og snjallsímum sjálfkrafa að leitarvél Google. Þetta hafi fyrirtækið svo nýtt sér til að afla meiri auglýsingatekna, ekki bara með því að fjölga auglýsingum heldur líka hækka verðið á þeim umfram það sem eðlilegt gæti talist á frjálsum markaði. Hallgrímur Indriðason segir frá. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Mark Eldred