Búseti og skemman stóra, Ísland og Úkraína, svakalega sveiflukennt rafmagnsverð á Norðurlöndum
Spegillinn - Podcast készítő RÚV
Kategóriák:
Búseti fór þess á leit við byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar um miðjan nóvember að framkvæmdir við vöruhúsið sem nú rís við Álfabakka yrðu stöðvaðar. Þetta kemur fram í gögnum sem Spegillinn fékk afhent í dag. Vöruhúsið byrgir íbúum fjölbýlishúss við Árskóga sjö sýn, blokk sem Búseti byggði. Í bréfi Búseta frá í nóvember kom meðal annars fram að á lóðinni væri verið að reisa fjögurra hæða hús, tólf metra háa byggingu, sem ætti sér enga stoð í útgefnu byggingarleyfi eða svörum skipulagsfulltrúa við fyrirspurn frá áhyggjufullum hjónum sem óttuðust að birtan yrði tekin frá þeim ef svona hátt hús myndi rísa á reitnum. Verkefnisstjóri hjá skipulagsfulltrúa sefaði áhyggjur hjónanna og taldi sig nánast geta fullyrt að slíkt myndi ekki gerast. Freyr Gígja Gunnarsson fjallar um þetta og ræðir við Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn. Staðan í Úkraínu, mögulegar friðarviðræður og hugmyndir um friðargæslulið verða líklega á dagskrá fundar í Brussel kvöld, þar sem Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti hittir leiðtoga Evrópusambandsins og nokkurra Evrópuríkja, þar á meðal Íslands. Zelensky fundaði með leiðtogum tíu Evrópuríkja í gær, þeirra á meðal Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, og Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlads, sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, starfandi utanríkisráðherra, segir hafa fengið afgerandi skilaboð í veganesti. Björn Malmquist ræðir við Þórdísi Kolbrúnu. Þetta er galið raforkukerfi og Svíþjóð getur ekki búið við kerfi sem er svona háð duttlungum veðráttunnar, sagði Ebba Busch, orkumálaráðherra Svíþjóðar þegar rafmagnsverð þar rauk upp úr öllu valdi í síðustu viku. Danir supu líka hveljur þegar þeim varð litið á rafveitu-öppin sín, sem birta rafmagnsverð í rauntíma – en á fimmtudaginn var, klukkan fjögur síðdegis, kostaði kílóvattstundin ellefu danskar krónur – rúmar tvö hundruð íslenskar, sem þýðir að passlega heit fimm mínútna sturta kostaði þúsundkall. Ævar Örn Jósepsson skoðaði málið. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon