59 | Lokaþáttur: Stóri gagnalekinn og kynlífshneyksli þingmanns
Heimskviður - Podcast készítő RÚV - Szombatok
Kategóriák:
Í fimmtugasta og níunda og síðasta þætti Heimskviða fjöllum við meðal annars um aðför ungverskra stjórnvalda að fjölmiðlafrelsi og Evrópuþingmanninn sem sótti kynlífspartý með öðrum karlmönnum á meðan hann freistar þess að takmarka réttindi hinsegin fólks. Þá segjum við frá raunverulegum möguleikum þess stóra gagnalekans, áhyggjur sem mörg viðruðu eftir að þjónusta Facebook og Google bilaði á dögunum. Þá fjöllum við um viðburðaríkt ár á erlendum vettvangi og mikilvægi erlendra frétta. Það þótti heldur neyðarlegt þegar ungverskur Evrópuþingmaður þurfti að segja af sér eftir að greint var frá því að hann hafi brotið sóttvarnarreglur með því að sækja kynlífspartý með 20 öðrum karlmönnum í Brüssel - maður sem talinn er höfundur stjórnarskrár sem takmarkar réttindi hinseginfólks. Þetta mál er hins vegar ein af birtingarmyndum slæmrar lýðræðisþróunar í Ungverjalandi. Ríkisstjórnin hefur tekið til sín sífellt meiri völd og stjórnar nú meðal annars fjölmiðlum og dómskerfi . En hefur mál þingmannsins einhverjar afleiðingar? Við skoðum það með Eiríki Bergmann stjórnmálafræðingi og Szabolcs Panyi rannsóknarblaðamanni í Ungverjalandi. Flest okkar höfum á einhverjum tímapunkti óttast að persónulegar upplýsingar um okkur leki á netið. Í það minnsta leitt hugann að því. Almennir netnotendur vita þó sjaldnast hvar þessar upplýsingar þeirra eru í raun niður komnar. Eru þær grafnar í eitthvað gagnaver eða svífandi um í skýinu? Þegar upp koma vandræði hjá tæknirisum á borð við Facebook eða Google sem varða gagnaöryggi naga margir neglurnar og spyrja sig hvort nú sé komið að stóra gagnalekanum. Hvort núna loksins verði helt úr stóra upplýsingapottinum. Það urðu einmitt bilanir í þjónustum þessara fyrirtækja, Facebook og Google nú á dögunum, með stuttu millibili. Áhyggjur af stóra lekanum eru eflaust óþarfar í bili. En hann vofir alltaf yfir og hvað gerist þá veit enginn. Fer samfélagið á hliðina eða verða hreinlega ný siðaskipti meðal manna? Jóhannes Ólafsson fjallar um málið og ræðir við Brynjólf Borgar Jónsson, hjá Data lab á Íslandi og Þröst Jónasson hjá Miracle. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.