41| Trump í vanda, æfir Hvítrússar og framtíð Líbanon

Heimskviður - Podcast készítő RÚV - Szombatok

Kategóriák:

Í fyrsta þætti annarrar þáttaráðar Heimskviða er komið við í Bandaríkjunum, Hvíta-Rússlandi og Líbanon. „Donald Trump og Repúblikanaflokkurinn eru í miklum vandræðum,“ segir stjórnmálaprófessorinn James Thurber, í viðtali við Bjarna pétur Jónsson. Thurber segir sömuleiðis að fyrirhugaðar forsetakosningar í Bandaríkjunum verði mikil prófraun fyrir lýðræðið þar í landi. Svo gæti farið að eftir 80 daga nái Demókratar forsetaembættinu og meirihluta í báðum deildum þingsins. Kórónuveirufaraldurinn hefur geisað nánast óáreittur í Bandaríkjunum því eins og veiran skæða hefur aðgerða- og andvaraleysi forsetans smitast út í samfélagið. Þar er faraldurinn hvergi eins útbreiddur og setur allt í senn í uppnám, efnahag Bandaríkjanna, kosningarnar sjálfar og forsetatíð Donalds Trump. Aldrei áður hafa jafn harkaleg átök brotist út milli almennings og lögregluyfirvalda í Hvíta-Rússlandi og nú, en svo virðist sem almenningur sé endanlega búinn að fá nóg af Aleksander Lukasjenka, forseta landsins. Fullvíst þykir að forsetinn hafi hagrætt úrslitum forsetakosninga síðastliðinn sunnudag, ekki í fyrsta sinn heldur það fimmta. Guðmundur Björn ræðir við blaðakonuna Sofyu Orlosky um átökin í landinu og þrá Hvítrússa eftir réttlæti. Orlosky segir meðal annars að forsetinn sé í algerri afneitun gagnvart vilja almennings og það sé ljóst að Svetlana Tikhanovskaya, mótframbjóðandi Lukasjenkas, hafi hlotið yfirburðakosningu á sunnudag - þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda um annað. Ólöf Ragnarsdóttir, fréttamaður, segir frá því hvernig ástandið í Líbanon blasir við íbúum landsins. Ólöf heimsótti landið síðast í mars og þekkir marga sem þar búa. Hún segir íbúum landsins stillt upp við vegg. Margir séu búnir að fá nóg en það er ekki að miklu að hverfa fyrir þau sem berjast gegn spillingu stjórnvalda. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.