31 | Öfgar á tímum COVID19, áhrif veirunnar á umhverfið og Inter Miami

Heimskviður - Podcast készítő RÚV - Szombatok

Kategóriák:

Í þrítugasta og fyrsta þætti Heimskviðna fjalla Guðmundur Björn og Birta um ólík viðbrögð þjóðarleiðtoga um veröld víða við útbreiðslu kórónuveirunnar COVID19. Forseti Filippseyja vill skjóta þá sem rjúfa sóttkví, en forseti Brasilíu segir fólki að hundskast í vinnuna. Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands er nánast orðinn einvaldur, og í Hvíta-Rússlandi gengur lífið sinn vanagang, líkt og enginn heimsfaraldur gangi nú yfir. Þá grassera falsfréttir, streymisveitur hafa aldrei verið jafn vinsælar og við erum hætt að taka í höndina á hvort öðru. Þá fjallar Bergljót Baldursdóttir um áhrif COVID19 á umhverfið og loftslagsmál. Það er nefnilega svo að útbreiðsla veirunnar virðist hafa ansi hreint jákvæð áhrif á umhverfið, enda eru helstu skaðvaldar þess - mennirnir - að menga töluvert minna en venjulega. En fer allt aftur í sama farið þegar faraldurinn hefur runnið sitt skeið? Svo segir Hallgrímur Indriðason okkur frá nýju fótboltaliði Davids Beckham, Inter Miami, sem hóf nýverið leik í bandarísku atvinnumannadeildinni í fótbolta. Þá rekur hann einnig sögu atvinnumannadeildarinnar í Bandaríkjunum, en fótbolti hefur ekki notið mikilla vinsælda vestanhafs. Á því hefur þó verið nokkur breyting síðustu ár, ekki síst vegna Beckhams. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.