154| Náttúruhamfarir í Afríku, kosningar í Póllandi og Novo Nordisk
Heimskviður - Podcast készítő RÚV - Szombatok
Kategóriák:
Í Heimskviðum í dag förum við víða eins og venjulega, náttúruhamfarir í Afríku, pólitík í Póllandi og fjöllum svo um verðmætasta fyrirtæki Evrópu. Íbúar Norður-Afríku máttu þola tvenns konar náttúruhamfarir á þremur dögum um síðustu helgi. Mikið manntjón varð eftir jarðskjálfta í Marokkó og flóð í Líbíu og íbúar kvarta undan því að neyðaraðstoð berist ekki nógu hratt. Bjarni Pétur ræddi við Jóhann Thoroddsen sálfræðing sem fór á vettvang jarðskjálftanna í Bam í Íran í byrjun aldarinnar og svo aftur á Haítí. Og hann þekkir vel þessa vinnu sem fer af stað þegar svona hamfarir verða, hvernig unnið er úr áföllunum og hvernig líðan fólks við þessar aðstæður. Við fjöllum um verðmætasta fyrirtækið í Evrópu. Það er danskt en er þó hvorki LEGO né Carlsberg. Það heitir Novo Nordisk og hagvöxtur danska ríkisins var á fyrri helmingi ársins keyrður áfram á þessu eina fyrirtæki. Fyrirtæki sem er metið með hærra markaðsvirði en heildarvirði danska hagkerfisins. Birta kynnti sér sögu Novo Nordisk. Svo förum við til Póllands. Vaxandi skautun og óvægin umræða um pólitíska andstæðinga einkennir kosningabaráttuna í Póllandi, þar sem þingkosningar verða haldnar fimmtánda október. Stjórnarflokkurinn, sem á pólsku kallast Lög og réttlæti, hefur verið við völd frá 2015. Nái flokkurinn aftur meirihluta, yrði það í fyrsta skipti síðan 1989, þegar kommúnistar létu af völdum í Póllandi, að sami flokkur haldi um stjórnartaumana þrjú kjörtímabil í röð. Það verður spennandi að sjá hvort það takist því skoðanakannanir benda til þess að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Borgaravettvangur - gæti unnið nauman sigur og mögulega púslað saman meirihlutastjórn með smærri flokkum. Björn Malmquist, fréttaritari RÚV í Brussel, var í Póllandi á dögunum. Umsjónarmenn þáttarins eru Birta Björnsdóttir og Bjarni Pétur Jónsson.