132| Munchausen by proxy og kokkur Pútíns

Heimskviður - Podcast készítő RÚV - Szombatok

Kategóriák:

Heggur sá er hlífa skyldi er líklega orðatiltækið sem passar hvað best við fyrra umfjöllunarefni þáttarins. Heilkennið og hegðunarmynstrið Munchausen by proxy er notað um fólk, oftast foreldra, sem ýkja eða einfaldlega framkalla veikindi hjá börnum sínum til að fá athygli ást og umhyggju. Sérfræðingar eru flestir sammála um að þó að þetta sé ekki algengt fyrirfinnist þetta mjög víða, einnig hér á landi. Hvergi í Bandaríkjunum koma upp fleiri tilvik af Munchausen by proxy en í sýslu einni í Texas. Það er ekki þar með sagt að þar búi hlutfallslega fleiri sem veikja börn sín viljandi heldur er þar starfandi þverfaglegt teymi sem hefur það eitt að markmiði að taka á málum sem þessum. Í seinni hluta þáttarins fjöllum við um Rússa sem hefur verið töluvert í fréttum síðustu mánuði. Hann er með einkarekinn her á sínum snærum sem í eru margir harðsvíraðir glæpamenn sem berjast í styrjöldum, þar á meðal í Úkraínu. Auk þess rekur hann svokallaða tröllaverksmiðju þar sem framleiddar eru falsfréttir í stórum stíl. Það er engu líkara en hér sé verið að lýsa sögupersónu í kvikmynd en svo er ekki. Þessi lýsing á við mann af holdi og blóði. Hann býr í Rússlandi, heitir Yevgeny Prígozhín - og er betur þekktur sem kokkur Pútíns. Umsjónarmenn þáttarins eru Birta Björnsdóttir, Bjarni Pétur Jónsson og Sunna Valgerðardóttir.