Verðbólga og viðsnúningur á umdeildum lögum í Texas
Hádegið - Podcast készítő RÚV
Kategóriák:
Í fyrri hluta þáttarins örskýrir Atli Fannar Bjarkason fyrirbærið verðbólgu. Verðbólga er á vörum margra um þessar mundir. Á heimsvísu heldur verbólga áfram að aukast á næstu mánuðum og nær ekki jafnvægi fyrr en um mitt næsta ár, samkvæmt nýrri spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Verðlag hefur hækkað á þessu ári, um leið og hagkerfi heimsins ná vopnum sínum á ný eftir efnahagskreppuna sem fylgdi kórónuveirufaraldrinum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bendir á vöruskort, truflanir á aðfangakeðjum og örvunaraðgerðir seðlabanka sem helstu orsakaþætti verðbólgunnar. Hér á landi mælist verðbólga nú 4,4 prósent, sem er umtalsvert yfir 2,5 verðbólgumarkmiði Seðlabankans. En hvað er þetta fyrirbæri verðbólga? Í örksýringum sínum útskýrir Atli Fannar Bjarkason flókin fyrirbæri, á einfaldan hátt. Dómari við alríkisdómstól í Texasríki varð við beiðni Bandaríkjastjórnar um að stöðva tímabundið nýja og umdeilda þungunarrofslöggjöf í Texas. Lögin, sem tóku gildi fyrsta september, eru þau ströngustu í Bandaríkjunum öllum. Og samkvæmt þeim er þungunarrof bannað eftir að greina má hjartslátt hjá fóstri, en það er alla jafna í kringum sjöttu viku meðgöngu. Á þeim tíma eru margar konur enn óvarar um að þungun hafi átt sér stað. Aðeins má grípa inní ef heilsa konu er í hættu. Aðrar undantekningar eru ekki veittar, svo sem ef þungun kom til vegna lögbrots, til dæmis nauðgunar eða sifjaspells. Þá heimila og hvetja lögin almenning til að koma upp um hvern þann sem kann að hafa aðstoðað konu við þungunarrof eftir þann tíma sem lögin kveða á um og - leiði málið til sektar - fær viðkomandi peningagreiðslu frá ríkinu að launum. Katrín tekur nú við. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.