Uppsig Talíbana í Afganistan og þróun bóluefna við COVID-19

Hádegið - Podcast készítő RÚV

Kategóriák:

Uppgangur Talíbana í Afganistan hefur verið með ólíkindum hraður undanfarna daga og vikur. Hver afganska borgin fellur á fætur annarri í hendur talíbana og fjöldi fólks flýr nú landið. Líklegast má rekja uppganginn til brotthvarfs alþjóðaliðsins, Bandaríkjahers og Breta, úr landinu, en til stóð að það yrði með öllu farið 11. september næstkomandi. Snærós ræðir við Unu Sighvatsdóttur um málið í fyrri hluta þáttarins. Una starfaði á upplýsingadeild Nató í Kabúl, höfuðborg Afganistan, á árunum 2016 til 2018. Nú hefur heimsfaraldur haldið nær öllum heiminum í heljargreipum í meira en eitt og hálft ár - og átján mánuðir - þrátt fyrir að vera kannski tiltölulega skammur tími í stóra samhengi hlutanna - hefur sjaldan liðið jafn hægt og verið jafn þrúgandi. Allskonar hefur gerst á þessum mánuðum - flest slæmt - en þó sumt gott inn á milli. Því þessir fordæmalausu tímar hafa einnig kallað á fordæmalaus viðbrögð - fordæmalausa vísinda - já og skipulagssigra. Á einu og hálfu ári hafa tugir bóluefna verið fundin upp, þróuð og framleidd. Fjögur þeirra hafa hlotið markaðsleyfi hér á landi og þeim hefur svo verið sprautað í okkur - eða um áttatíu prósent Íslensku þjóðarinnar - sextán ára og eldri - á skipulegan hátt - allt með áður óþekktu hraði. En það að reyna að halda í við þessa hröðu, ófyrirsjáanlegu og síbreytilegu veiru, þýðir að oft þarf að bregðast skjótt við og taka ákvarðanir út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir einmitt þá stundina. Upplýsingum sem - eins og með annað í þessum faraldri - eru ekki endilega fasti - heldur í sífelldri mótun. Vissan - jafnvel staðreyndir - geta því breyst ört, stundum frá degi til dags meira að segja. Og það á einnig við um bóluefnin. Margt hefur nú komið í ljós, margt hefur nú breyst, frá því við heyrðum fyrst af þessum nýju bóluefnum og þar til þau fóru að renna um æðar okkar. Við ræðum við Rúnu Hauksdóttur Hvannberg, forstjóra Lyfjastofnunar um þróun bóluefna gegn COVID-19 í seinni hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur. Þáttur dagsins var í umsjón Katrínar og Snærósar Sindradóttur.