Samfélagsmiðla-endurskoðendur og ný fjármálaáætlun stjórnvalda
Hádegið - Podcast készítő RÚV
Kategóriák:
Tveir starfsmenn samfélagsmiðilsins TikTok hafa lögsótt fyrirtækið vegna óviðunandi starfsaðstæðna sem þær segja að hafi ollið þeim miklum andlegum skaða og áföllum og ófullnægjandi viðbrögðum samfélagsmiðilsins við því. Störf þeirra fólust í því að horfa á hundruð samfélagsmiðlamyndbanda dag hvern og skera úr um hvort myndefnið fengi að vera á miðlinum eða hvort tilefni væri til að ritskoða það eða fjarlægja samkvæmt reglum miðilsins. Þau myndbönd sem urðu á vegi þeirra eru, eðli málsins samkvæmt, öll þau verstu sem hægt er að finna og sjá á netinu - sýna sjálfsskaða, ofbeldi, klám, dýraníð og þar fram eftir allra verstu og dimmustu götunum. Við vörum við umfjöllunarefninu. Ríkissjóður verður rekinn með rúmlega þrjátíu milljarða króna halla árið 2027, samanborið við ríflega 180 milljarða halla í ár, samkvæmt nýrri fjármálaáætlun stjórnvalda sem kynnt var í morgun. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í kynningu sinni að efnahagshorfur séu að batna og tekjuhlið ríkisfjármálanna að taka við sér. Spá Hagstofunnar um árlega landsframleiðslu séu allt að 90 milljörðum hærri en í upphafi heimsfaraldurs. En á sama tíma er ársverðbólga komin upp í sex komma sjö prósent, og hefur ekki verið hærri í tæp tólf ár. Við ræðum við Drífu Snædal, forseta ASÍ um fjármálaáætlun, aukna verðbólgu og komandi kjaraviðræður í síðari hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.