Morðingi RFK fær hugsanlega reynslulausn og Stefan Löfven hættir
Hádegið - Podcast készítő RÚV
Kategóriák:
Rúm fimmtíu ár eru liðin frá því að Sirhan Sirhan, þá ungur maður, skaut Robert F. Kennedy, öldungadeildarþingmann og forsetaefni Demókrata, til bana á Ambassador-hótelinu í Los Angeles. Sirhan hefur setið inni síðan en þó ekki mótbárulaust. Hann hefur sextán sinnum óskað eftir reynslulausn og nú gæti honum orðið að ósk sinni. Á föstudaginn samþykkti nefnd sem úrskurðar um reynslulausn fanga í Kaliforníu að Sirhan, morðingi Kennedy, ætti rétt á reynslulausn. Tvö börn Kennedys styðja reynslulausnina. Sex systkinanna eru á móti því að hann verði látinn laus. Að endingu verður það svo Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu sem ákvarðar hvað gerist næst. Við rifjum upp málið og þessar nýjustu vendingar í fyrri hluta Hádegisins. Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar og formaður Jafnaðarmannaflokksins, tilkynnti nýlega að hann hygðist láta af störfum. Í Svíþjóð er talað um að Löfven hafi níu líf - maðurinn sem hefur haldið forsætisráðherraembættinu í gegnum ófáar krísur, á sama tíma og fylgi við flokk hans dalar og dalar. En hver er þessi maður - sem enginn kann illa við en fáir dást að? Hver er arfleið hans og hvaða áhrif hefur brotthvarf hans á sænsk stjórnmál? Við fáum Kára Gylfason í Gautaborg til að fara yfir það í seinni hluta Hádegisins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.