Leigubílar og COP26 senn á enda
Hádegið - Podcast készítő RÚV
Kategóriák:
Umræðan um fyrirkomulag leigubíla á Íslandi skýtur reglulega upp kollinum. Í vikunni blandaði ESA, eftirlitsstofnun EFTA, sér í málið og sendi frá sér tilkynningu þar sem kemur fram að reglur um leigubílaleyfi hér á landi séu ekki í samræmi við EES-samninginn. Samkvæmt núverandi löggjöf þarf atvinnuleyfi til þess að mega aka leigubíl á ákveðnum svæðum, gert ráð fyrir að leigubílstjórar tengist leigubílastöð á skilgreindu svæði og hafi aksturinn að aðalstarfi. Þetta telur ESA vera ólögmæta takmörkun á rétti fólks til að stofna til varanlegrar atvinnustarfsemi í öðru aðildarríki, eða svokölluðum staðfesturétti. Það er föstudagur og á föstudögum örskýrir Atli Fannar Bjarkason fyrir okkur flókin mál, og í dag tekur hann fyrir íslenska leigubílaumhverfið. Bjartsýni ríkti í Glasgow í gær um að samningur náist á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir sem gangi nógu langt til að markmið Parísarsamkomulagsins náist. Þá kynntu Bandaríkin og Kína samstarf í loftslagsmálum í fyrradag og hefur formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands sagt að það verði diplómatískt afrek ef samkomulag þjóðanna dugi til að tryggja samkomulag um mjög hertar aðgerðir í loftslagsmálum. Ný drög að samkomulagi loftslagsráðstefnunnar COP26 í Glasgow voru birt í morgun, en ráðstefnunni á að ljúka í dag. Halldór Þorbergsson formaður Loftslagsráðs lítur við í síðari hluta þáttarins og ræðir um það helsta sem fram fór á ráðstefnunni, og hvað er framundan. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.