Hamingja og von árið 2021
Hádegið - Podcast készítő RÚV
Kategóriák:
Nú er árið 2021 alveg að líða undir lok. Á slíkum tímamótum líta margir yfir farinn veg - taka stöðuna á árinu sem er að líða og hafa kannski ákveðnar hugmyndir um nýtt ár eða væntingar til þess. Eftir svona ár eins og 2020 og 2021 þá bíða kannski margir betri og bjartari Covid-lausra tíma. Það má alltaf vona - hvað þá á tímamótum eins og áraskiptum. En eitthvað virðist ganga á þessa von - það leiðir að minnsta kosti árslokakönnun Gallup International í ljós. Nú telja víst aðeins um fjörutíu prósent heimsins að nýtt ár verði betra en það síðasta. Næstum þrjátíu prósent búast við verra ári og tæplega þrjátíu prósent að árið 2022 verði svipað eða eins og 2021. Niðurstöður könnunarinnar voru svipaðar í fyrra en árin á undan var bjartsýnin talsvert meiri fyrir nýju ári. Árið 2008 heldur þó samt titlinum svartsýnasta ár aldarinnar. Í fyrri hluta þáttarins ætlum við að skoða árslokakönnun Gallups um hamingju og von á árinu 2021 - ári sem óneitanlega einkenndist af heimsfaraldri og alvarlegum afleiðingum hans, eins og efnahagsþrengingum. Og niðurstaða könnunarinnar ber þess merki. Samkvæmt henni hefur árið sem nú er að líða einkennst af minni hamingju en árið á undan. Árslokakönnun Gallup International er elsta alþjóðlega könnun heims. Þar eru skoðaðar væntingar til efnahagsástands og velsældar á nýju ári á heimsvísu - von og bjartsýni jarðarbúa og hamingja heimsins. Í ár tóku fjörutíu og fjögur ríki þátt í könnuninni og svöruðu rúmlega fjörutíu þúsund manns. Í seinni hluta þáttarins skoðum við hamingjuna - hugtakið sjálft - og spyrjum Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur, sviðsstjóra lýðheilsu hjá embætti landlæknis, hvar hana sé að finna og hvernig hægt sé að halda í hana. Hversu hamingjusöm erum við hér á landi? Og hvaða áhrif hefur heimsfaraldur haft á gleði og ánægju almennings? Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.