Friðarverðlaunahafar og framtíð Julian Assange

Hádegið - Podcast készítő RÚV

Kategóriák:

Það er ekki beint glænýtt að fjölmiðlun og fjölmiðlafrelsi falli í grýttan jarðveg - svo sem hjá valdhöfum og þeim sem ráða. Þegar litið er til hlutverks fjölmiðla, sem er að upplýsa, miðla, rýna og veita þeim sem valdið hafa aðhald, liggur það kannski augum uppi að ekki kunni allir ráðamenn gott að meta hvað þetta varðar. Það sem er sem sagt kannski nýtt í þessu er þróunin - að það virðist færast í aukana að vegið sé að fjölmiðlum, fjölmiðlafrelsi og fjölmiðlamönnum. Til dæmis, samkvæmt CPJ - alþjóðlegri nefnd um verndun blaðamanna, var nýtt met slegið í þessum efnum í ár: Metfjöldi blaðamanna var handtekinn á heimsvísu á árinu eða tvö hundruð níutíu og þrír. Og þá voru minnst tuttugu og fjórir myrtir starfa sinna vegna. Og það er kannski einmitt vegna þessarar þróunar sem Nóbelsverðlaunanefndin ákvað í ár - í fyrsta sinn síðan 1935 - að tileinka blaðamönnum friðarverðlaun Nóbels. Handhafar verðlaunanna eru blaðamennirnir María Ressa frá Filippseyjum og Dmitry Muratov frá Rússlandi fyrir framlag sitt til varnar tjáningarfrelsinu, frumforsendu lýðræðis og varanlegs friðar. En það var um tíma tvísýnt hvort Ressa fengi yfirhöfuð heimild frá yfirvöldum í heimalandi sínu til að fara til Noregs og taka við verðlaununum - til þess þurfti hún leyfi fjögurra filippseyskra dómstóla af þeim sjö sem nú reka mál gegn henni vegna starfa hennar. Dómsmál, lagabreytingar, frelsissvipting og annað slíkt hefur oft reynst vera gott vopn í höndum þeirra sem vilja hefta tjáningar- og fjölmiðlafrelsið. Það á einnig við í tilfelli uppljóstrarans Julians Assange. - Áfrýjunardómstóll í Lundúnum komst nýverið að þeirri niðurstöðu breskum stjórnvöldum sé heimilt að framselja Assange, stofnanda WikiLeaks, til Bandaríkjanna - þar sem bandarísk stjórnvöld bíða eftir að fá að rétta yfir honum fyrir að birta hundruð þúsunda leyniskjala tengd átökunum í Írak og Afganistan á árunum 2010 og 2011. Við fjöllum nánar um málið í síðari hluta þáttarins og ræðum þá við Kristin Hrafnsson, ritstjóra Wikileaks. En við byrjum á fjölmiðlaumhverfinu og friðarverðlaunahöfunum Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur..