Fólk á flótta og ábyrgð ríkja

Hádegið - Podcast készítő RÚV

Kategóriák:

Þátturinn í dag er tileinkaður málefnum fólks á flótta. Milljónir manna hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín og flýja heimkynni sín í gegnum söguna. Ástæðurnar eru margvíslegar: stríð, vopnuð átök, hungursneyð, ofsóknir ríkisvaldsins og þar fram eftir götunum. Í dag eru um áttatíu milljónir manna í þessari stöðu. Hafa ákveðið að líf á flótta - leit að betra lífi annarsstaðar - sé betri valkosturinn af tveimur slæmum. Og slæmur er hann. Til dæmis hafa rétt tæplega tuttugu og þrjú þúsund manns týnt lífinu eða horfið á Miðjarðarhafinu frá 2014, og rúmlega hundrað í Ermarsundinu, hafandi ákveðið að flýja enn verri aðstæður í heimalandinu. Og erfitt er svo að segja til um hvað bíður þeirra sem ná landi aftur - hvort dvöl við bágar aðstæður í flóttamannabúðum taki við, eða líf á götunni, farmiði aftur "heim". Eða, hugsanlega og í einhverjum tilvikum, vernd og nýtt líf, jafnvel ný tækifæri. En hvað ræður viðtökunum og viðbrögðunum? Hvers vegna eru landamæri ríkja, til dæmis á Vesturlöndum, í auknum mæli lokuð og vernduð - flóttafólki og fólki í neyð haldið úti? Hvaða ábyrgð bera ríki heims á fólki sem ekki getur verið í heimalandi sínu? Hvaða þátt eiga stjórnmálin í flóttamannakrísunni? Í síðari hluta þáttarins spyrjum við Eirík Bergmann Einarsson stjórnmálafræðing út í landamærin og ábyrgð ríkja gagnvart fólki í neyð. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.