Borgarastríðið í Jemen og meira um netlöggur og Petito
Hádegið - Podcast készítő RÚV
Kategóriák:
Stærsta hörmungasvæði heims er Jemen að mati sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna og hvergi í heiminum eru fleiri í alvarlegri nauð. 29 milljónir búa í landinu og af þeim eru 24 milljónir algjörlega háðar alþjóðlegri mataraðstoð, það er svipaður fjöldi og býr í allri Ástralíu. Þar braust út borgarastríð árið 2015, stríð sem stundum er kallað gleymda stríðið - þar sem fókus vestrænna miðla hefur veirð annarsstaðar, meðal annars á átökunum í Sýrlandi. Um 100.000 manns hafa látist í þessum, þar af um 12.000 óbreyttir borgarar, og um 50.000 særst. Sér í lagi hafa stríðsátökin komið illa niður á jemenskum börnum. Gunnar Hrafn Jónsson, blaðamaður og sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda, ræðir um þessi átök við okkur í fyrri hluta þáttarins. Hin unga bandaríska Gabrielle Petito var myrt. Talið er að Brian Laundrie, unnusti hennar og ferðafélagi, hafi tekið hana kyrkingartakinu sem varð að endingu dánarorsök hennar. Því miður er það ekki einsdæmi að kona látist vegna ofbeldis í nánu sambandi, en eins og við vitum eru dæmin æðimörg. Samt einhverra hluta vegna hefur þetta einstaka mál náð að fanga athygli fjölmiðla og netverja á heimsvísu. Almenningur hefur fundið sig knúinn til að taka þátt í rannsókn málsins í netheimum og á samfélagsmiðlum. Og sú þátttaka athugula samfélagsmiðlanotenda leiddi til dæmis til þess að lík hennar fannst að endingu. En hvað er það við einmitt þetta mál sem kallaði svo á athygli fjölmiðla og samfélagsmiðlanotenda - og hélt henni og þeim við efnið? Við spyrjum Margréti Valdimarsdóttur, doktor í afbrotafræði og dósent í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, nánar út í það í seinni hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.