Big Tech og þriðja vaktin á heimilinu
Hádegið - Podcast készítő RÚV
Kategóriák:
Stærstu tæknifyrirtæki heims, sem á ensku eru einfaldlega kölluð Big Tech, hafi vaxið gríðarlega síðustu ár. Þessi risafyrirtæki eru mörg hver í ráðandi stöðu á markaðnum, kaupa minni fyrirtæki og stækka og stækka og spurningar sem lúta að sanngjarnri samkeppni hafa orðið fleiri og fleiri meðal ráðamanna víða um heim síðustu ár. Enda er vald þessara risafyrirtækja mikið og vöxtur þeirra verið svo mikill á svo stuttum tíma að löggjafinn hefur ekki alltaf getað brugðist við. Í sumar skrifaði Joe Biden Bandaríkjaforseti undir tilskipun sem ætlað er að veita þessum risafyrirtækjum aukið aðhald og koma í veg fyrir að þau nái einokunarstöðu á markaðnum. En hver eru þessi stærstu fyrirtæki í tæknibransanum, þessi risafyrirtæki - Big Tech - sem hafa vaxið svo rosalega á síðustu árum að mörgum þykir nóg um? Hún Kirstjana Björk Barðdal, tæknisérfræðingur Hádegisins, svarar því. Talað er um að fyrsta vaktin á heimilinu sé það launaða starf sem hjón eða pör sinna. Önnur vaktin felur svo í sér framkvæmd hinna ýmsu starfa og verkefna heimilisins, svo sem þrifum, að baða börnin og þar fram eftir götunum. Þessi vakt fellur mun oftar á konur en karla í gagnkynja samböndum. En svo er það þriðja vaktin: Sú ólaunaða ábyrgð og vinna sem felst í verkstýringu og yfirumsjón með heimilis og fjölskylduhaldinu. Í því felast allskonar og stundum vanmetin verkefni - eins og að panta tíma fyrir barn hjá tannlækni og muna eftir afmælum og gjöfum eða hrekkjavökunni í tæka tíð. Og aftur er algengast að konur sinni þessari vakt og taki að sér þá hugrænu byrði sem í henni er fólgin. Því geta fylgt ýmsar afleiðingar, bæði innan og utan heimilisins - afleiðingar sem á endanum standa í vegi fyrir jafnrétti. Hulda Jónsdóttir Tölgyes sálfræðingur ræðir við Katrínu um þriðju vaktina Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.