Barist um Sheikh Jarrah og staðan í Hvíta-Rússlandi

Hádegið - Podcast készítő RÚV

Kategóriák:

Barátta um eignarhald á landi Sheikh Jarrah-hverfisins í Austur-Jerúsalem dregst enn á langinn. Í gær frestaði Hæstiréttur í Ísrael, í annað sinn, úrskurði um hvort vísa megi palestínskum fjölskyldum af heimilum sínum til að rýma fyrir landtökubyggðum Ísraela í hverfinu. Barist hefur verið um eignarhald á svæðinu í um þrjátíu ár. Hvítrússneski aðgerðasinninn Vitaly Shishov, sem saknað hefur verið frá því í gærmorgun, fannst hengdur í almenningsgarði í Kiev í morgun, skammt frá heimili hans. Shisov skilaði sér ekki aftur heim eftir að hann fór út að skokka í gærmorgun. Lögreglan segist rannsaka allar hliðar málsins, meðal annars hvort morð hafi verið framið og dulbúið sem sjálfsvíg. Shiskov fór fyrir frjálsum félagasamtökum sem aðstoða fólk við að flýja Hvíta-Rússland í óþökk þarlendra stjórnvalda. Þá ætluðu stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi að senda ólympíukappann og spretthlauparann Krystsinu Tsimanouskayu nauðuga viljuga frá Tókíó til Hvíta-Rússlands og koma í veg fyrir að hún tæki þátt í Ólympíuleikunum, en yfirvöldum í Japan tókst að skjóta yfir hana skjóli í tæka tíð. Fjöldi Hvítrússa hefur flúið land undanfarið, einkum til Úkraínu, Póllands og Litháen. Rætt er við Guðlaug Þór Þórðarsson utanríkisráðherra og Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson íþróttafréttamann, sem staddur er í Tókíó um málið í seinni hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur. Þáttur dagsins var í umsjón Katrínar og Snærósar Sindradóttur.