Trjágróður á Akureyri, Ívar gröfukall á Flateyri og flóðsvín í heitum laugum

Samfélagið - Podcast készítő RÚV

Kategóriák:

Samfélagið sendir út frá þremur stöðum á landinu. Frá Efstaleiti þar sem Jón Þór Helgason tæknimaður situr, frá Flateyri þar sem Guðmundur Pálsson er og frá Akureyri - þar er Arnhildur Hálfdánardóttir. Og efni þáttarins kemur líka úr þremur áttum. Við byrjum á Akureyri, þar er skýjað, kalt og frekar stillt, vettlingaveður og við ætlum að tala um tré. Akureyri er stundum kölluð bærinn í skóginum og það eru mörg gömul og tignarleg tré sem setja mark sitt á bæinn. Sniðgötubirkið, Þríforkslerkið við Bjarmastíg, Asparrisinn við Oddeyrargötu svona svo dæmi séu nefnd. Við förum í gönguferð um Akureyri með Bergsveini Þórssyni, garðyrkju- og skógfræðingi, ræðum um einstök tré, eðli trjáa og framtíðina - en tré verða víst ekki eilíf - og við spyrjum: Verður enn gróðursælt á Akureyri eftir 30 ár? Og á Flateyri er heiðskírt og logn og 3-4 stiga frost. Afskaplega fallegt veður. Og það er snjór yfir öllu. En það sem umsjónarmönnum Samfélagsins finnst umtalsverður snjór þykir Ívari gröfukalli, sem sinnir snjómokstri á Flateyri varla vera neitt neitt. Hann er stöðugt á ferðinni að halda götunum hreinum og við reynum að grípa hann. Svo eru það íþróttir í lok þáttar. Vera Illugadóttir ætlar að segja okkur frá nýafstaðinni keppni í Japan. Keppni sem margir hlustendur hafa eflaust beðið spenntir eftir að fá fréttir af. Það er keppni í þaulsetu flóðsvína í heitri laug.